Verkefnið „Tilfinningar og sjálfið á miðöldum í Norður-Evrópu“ er alþjóðlegt rannsóknarverkefni sem styrkt var af RANNÍS 2019. Markmiðið er að kanna vísbendingar um tilvist sjálfsvitundar í norður-evrópskum miðaldabókmenntum í gegnum rannsóknir á sviðsetningu tilfinninga í textum. Sviðsetningu tilfinninga í bókmenntum má skilja annars vegar sem staðlaða (félagslega og menningarlega) hegðun og hins vegar sem vitnisburð um sjálfsvitund þar sem slík sviðsetning gefur til kynna meðvitund um sjálf sem er fært um að skynja og upplifa tilfinningar. Hugtakið „sviðsetning tilfinninga“ (e. emotive performativity) felur í sér táknræna, málræna eða myndræna tjáningu tilfinninga og er notað hér sem fræðileg nálgunaraðferð til að rannsaka sjálfsvitund í miðaldabókmenntum og sögu tilfinninga í Norður-Evrópu.
Verkefnið byggir á bókmenntafræðilegri og málvísindalegri nálgun í þeim tilgangi að kanna hvernig tilfinningum er miðlað í textum – bæði sem málfarslegu og sem bókmenntalegu fyrirbæri – og hvernig sviðsetning þeirra hefur áhrif á skynjun okkar og upplifun á textalegu sjálfi. Markmiðið er að rannsaka þvermenningarlega vitnisburði um tilvist sjálfsvitundar – sem miðlað er í gegnum sviðsetningu tilfinning – og menningarbundnar og skáldlegar birtingarmyndir þess.
Rannsóknarteymið samanstendur af alþjóðlegum hóp fræðimanna frá minnst fjórum mismunandi löndum og háskólum. Verkefnið er leitt af Sif Ríkharðsdóttur, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Aðrir samstarfsmenn eru Carolyne Larrington, prófessor í evrópskum miðaldabókmenntum við Oxford háskólann, Frank Brandsma, dósent í almennri bókmenntafræði við Háskólann í Utrecht, Þórhallur Eyþórsson, prófessor í málvísindum við Háskóla Íslands, og Massimiliano Bampi, dósent í germanskri textafræði við Háskólann í Feneyjum.
Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðu verkefnisins á ensku.